Magaórói og 20 km dagur


Ljóst er að langur dagur var að kvöldi komin þegar leiðangursmenn fundu tíma til að skrifa það skeyti sem hér fer á eftir enda var það sent kl. 01.30 í nótt!

Við vöknuðum eftir góðan nætursvefn í Confluencia búðunum. Allir voru hressir en aðeins bar á magaóróa og niðurgangi hjá megninu af hópnum. Ekkert þó þannig að telja mætti veikindi og eftir morgunmat komum við farangrinum á múldýrin og lögðum í´ann á eftir lestinni upp í grunnbúðirnar Plaza de Mulas.
DSC00113
Dagleiðin var löng hátt í 20 km og 900 hæðarmetrar í hækkun. Enn sem fyrr vorum við dolfallin yfir landslaginu og litbrigðum þess sem virtust óþrjótandi. Eftir að hafa gengið upp í gegnum vel gróna jökulgarða tók við löng ganga inn Horcones dalinn sem þrengdist þar til hann endaði í urðarjökli sem við gengum upp og vorum þá loksins komin í grunnbúðir. Innarlega í dalnum sáum við Guanaco dýr sem er nokkurskonar dverglamadýr og stoppuðum til að virða það betur fyrir okkur og skömmu seinna töldum við okkur svo hafa séð kondór bera við risavaxinn klettavegginn. Eftir rúmlega 8 tíma göngu komum við í tjaldbúðirnar okkar 4.350 metra hæð og urðum öll fegin hvíldinni enda tók gangan töluvert á í brennandi sól og ótrúlega þurru og þunnu lofti.

Samkvæmt plani sem Leifur sendi á undirritaðann þá virðist allt vera að ganga upp (skv. plani) eins og vera ber í leiðangri sem þessum. Samkvæmt sama plani ætti dagurinn í dag að vera hvíldardagur.
Á morgun 14. jan er svo stefnt að því að ganga á einhvern lægri tind til aðlögunar áður en stefnan er tekin upp sjálft fjallið Aconcagua. E.t.v. má því reikna með að leiðangursmenn taki sér einnig hvíld frá bloggi en það kemur betur í ljós í kvöld. (ritari: Jón Gauti)

DSC00079    IMG_2631

Mynd 647

Þessi póstur var sendur með Inmarsat BGAN gervihnattabúnaði frá Sónar ehf. Sónar hefur lausnirnar fyrir fjarskipti utan alfaraleiða.