Á súrrandi fart niður fjallið


„Sæll Gauti þetta er Dagný hér … ég fékk það hlutverk að flytja síðasta pistillinn frá fjallinu.“
Skeytastjóra var vissulega létt … sko að heyra í sínu fólki, en ekki var síður tilbreyting að heyra undurþíða kvenmannsrödd Dagnýar.

Dagný: „Við fórum aftur upp í Chóleru campinn í um 6000 metra hæð. Það var ótrúlega fallegt að koma þangað upp. Við hittum tvo gæda sem höfðu reynt að fara á toppinn í dag en snér við vegna snjóflóðahættu. Við vorum öll sáttari fyrir bragðið. Það voru utanaðkomandi aðstæður sem stoppuðu okkur, bæði mikil snjóflóðahætta og mega stormur sem er að hellast yfir svo fólk er varað við að vera á fjallinu og allir á niður leið í dag. Við bara ráðum ekkert við þessar aðstæður og erum bara öll mjög vel sátt. Þetta ferðalag hefur verið eitt stórkostlegt ævintýri.“

Skeytastjóri: „Hvernig gekk ferðin niður í grunnbúðir?“

Dagný: „Við lögðum af stað kl. 16 frá Nido þegar við vorum búin að ganga frá dótinu og pakka og ég held að við höfum ekki verið nema um tvo tíma niður þessa 1300 metra í grunnbúðir (Plaza de Mulas). Þetta gekk hratt í snjónum svo við súrruðum bara niður hlíðarnar. Fjallið dróg upp á sig ský seinni partinn en það er enn bærilegt veður hér í Mulas. Held að það sé ekki farið að hvessa neitt verulega þarna uppi.“
Skeytastjóri: „Og hvernig er stemmingin í hópnum?“

Dagný: „Við erum öll hress og sátt við endalokin.“

Skeytastjóri: „Nú þar sem þú ert svona vel aðlöguð ertu þá að spá í að fylgja Vilborgu á toppinn þegar óveðrinu slotar?“

Dagný: „Nei ég er ekki með toppasýki. En þetta er stórkostlegt landslag og að fara upp í 6000 metra hæð er bara stórkostlegt fyrir mig. En kannski við ræðum það í kvöld. Annars eigum við núna einhverja x-marga daga eftir af ferðalaginu. Þannig að nú er markmiðið að nota þá daga sem eftir eru til að gera eitthvað skemmtilegt. Ætli það sé ekki vika eftir hér áður en við fljúgum heim, annars veit ég ekkert hvaða dagur er! Við göngum út á morgun en kannski komumst við ekki út til Mendósa fyrr en eftir einhverja daga. Annars er flótti úr búðunum út af veðrinu svo það liggur ekki einu sinni fyrir hvort farangurinn okkar kemst niður á morgun.“

Og allt hafðist þetta í þremur frekar slitróttum símtölum um gervihnött. Vona að viðmælandi taki viljan fyrir verkið.

Nú er fyrir mestu að hópurinn er allur komin til byggða við góða heilsu og á leið út úr þjóðgarðinum á morgun þegar veðrið skellur á fjallinu. Annað kvöld er líkelgt að fjórmenningarnir, Leifur, Dagný, Katrín og Þorsteinn gangi fram á Vilborgu sem stefndi að því að koma upp í grunnbúðir í kvöld en kann að hafa frestað því og stoppað í Confluenca á miðri leið. Líklega hittast þau um miðjan dag á morgun (nema Vilborg skili sér í grunnbúðir seinna í kvöld!) og hitti síðan Vilhjálm annað kvöld.

Skeytastjóri býður góða nótt.

/Jón Gauti