Andin er sterkur en alvaran eykst


“Það var iskalt í nótt og við vöknuðum í héluðum tjöldum í morgun (innskot skeytara: þri 14. jan).

Deginum var varið í aðlögunargöngu á fjallið Cerro Bonete sem sagt er vera 5.004 metra hátt en við afsönnuðum það með þremur samhljóða GPS-tækjum sem sýndu 5.050 metra.
Á leiðinni gengum við framhjá gríðarstórum fjallaskála sem mikið var lagt í á sínum tíma en var lokað fyrir um þremur árum. Hópurinn velti mikið fyrir sér viðskiptatækifærum tengdum skálanum til þess að geta flúið dimmustu vetrarmánuðina á íslandi. Við héldum áfram upp og gengum í gegnum mikinn skóg af snjóstrýtum sem eru algengt fyrirbæri í Andesfjöllunum en finnast óvíða annars staðar. Af toppi fjallsins var frábært útsýni og litadýrðin í landslaginu ótrúleg. Á meðan við vorum á toppnum i blíðskaparveðri snjóaði í hlíðar Aconcagua. Þegar við komum til baka í grunnbúðir var farið að snjóa töluvert og um kvöldið var snjóföl yfir öllu. Þetta eru mikil viðbrigði frá sólinni og þeim mikla hita sem verið hefur hér seinustu daga. Á meðan við setjum saman þennan pistil hefur hlaupið galsi í starfsfólk grunnbúðanna og hér geisar snjóboltastyrjöld. Við höldum okkur innandyra og spilum í rólegheitum á  meðan snjóboltarnir bylja á tjaldinu.
Að göngunni lokinni fórum við aftur í læknisskoðun og fengum grænt ljós á framhaldið og leggjum ótrauð af stað í fyrramálið. Til þess að minnka byrðarnar tökum við einungis með okkur gervihnattasíma og því munu engar myndir fylgja fréttapistlum þar til við komum aftur í grunnbúðirnar.” 

IMG_2673

 

Innskot skeytastjóra: Svo mörg voru þau orð. Næstu tvo daga munu leiðangursmenn hækka sig úr grunnbúðum (Plaza De Mulas) í 4.370 m upp í aðrar búðir á fjallinu í 5550 m (Nido de Condores) en á föstudaginn er líklegt, ef veðurspá gengur eftir, að þau muni snúa aftur niður í grunnbúðir.

Kl. 11.15 í dag (15. jan) heyrði skeytastjóri í Leifi Erni þar sem hann var að snæða morgunmat í grunnbúðum. Saman fórum við yfir veðrið næstu daga og ræddum möguleika. Því miður lítur út fyrir að á sunnudaginn 19. jan geri mjög hvassa vestan átt sem gæti sett strik í fyrstu mögulegu tilraun hópsins til að ná tindinum. Það verður því spennandi að fylgjast með framhaldinu og þá sérstaklega hvernig veðrið muni þróast næstu daga. Síðasti mögulegi toppadagur hópsins er 23. janúar og því er alls ekki öll von úti.

IMG_2691

 

IMG_2688

 

IMG_2676