Frábær dagur á fjöllum


Leifur hringdi kl. 13.15 að staðartíma

„Þetta er búin að vera frábær dagur á fjöllum“ sagði Leifur þá nýkomin niður í Nido de Cóndores (5550 m) úr Plaza Cólera (5970 m) þar sem þau tóku saman tjöld og annað dót sem þau höfðu áður komið fyrir í búðunum. „Við tókum hvíldardag í tjaldinu í gær enda snjóaði þá mikið í vindi og skyggnið var ekkert. Við tókum því bara rólega, borðuðum, drukkum og spiluðum en fórum öðru hvoru út til að létta á okkur.“

„Þeir sem vöknuðu snemma í morgun og drifu sig út sáu svo skuggann á fjallinu teygja sig upp í gufuhvolfið þegar fyrstu sólargeislarnir tóku að skýna. Það er búið að vera heiðskýrt síðan í morgun og nánast alveg logn. Fjallið er snævi þakið og loftið svo tært að við sjáum eftir öllum Andesfjallgarðinum. Það er reyndar svo mikill snjór á fjallinu að leiðsögumenn hér segjast ekki muna annað eins. Þannig segja reyndar leiðsögumenn stundum svo það er kannski ekkert að marka!“ segir Leifur og undirritaður skilur.

Og Leifur hélt áfram: „Við fréttum af fjórum einstaklingum hér í Nido sem tóku daginn mjög snemma til að reyna við toppinn. Að auki veit ég um sjö aðra sem lögðu af stað úr Cólera búðunum í 5970 metrum. Þau voru öll ágætlega aðlöguð en engin fór á toppinn vegna þess að í brattasta hluta leiðarinnar Canaleta, sem er 400 metra löng brött skriða, var snjódýptin um 80 cm og snjóflóðahætta umtalsverð.
Á leiðinni upp í Cólera til að ná í dótið gáfum við okkur tíma til að ganga fram á allar brúnir og taka myndir og njóta dagsins. Við skildum þó eftir mat til þriggja daga í efstu búðum fyrir Vilborgu og í Nido skildum við líka eftir tjald, prímus, potta og mat.
Nú erum við í hádegismat og eigum eftir að ganga frá dótinu áður en við förum niður eins og raunar allir hér í Nido ætla að gera. Nú er bara að pakka saman og koma sér niður af fjallinu áður en veðrið skellur á. Einhverjir hafa farið niður í gær því nú eru bara örfá tjöld á svæðinu.“

Í örstuttu innskoti skítur skeytastjóri því inn í að spáin gefi tilefni til að vera bjartsýnni með vikulokin því á föstudag bendir fyrst til að eitthvað dúri í veðrinu.
Leifur: „Þeir sem hafa rúman tíma og geta setið af sér óveðrið eru mikið að spá í hvenær þetta verður aftur komið í aðstæður. Það er ekkert sem kemur okkur við því það er spáð óveðri alla vikuna.“

Skeytastjóri: “Hvað eruð þið lengi niður í grunnbúðir?“
Leifur: Við eigum eftir að pakka en þetta er bara vinna … við verðum komin seinni partinn.  Ég hringi annað hvort í kvöld eða fyrramálið.

Þá hafði skeytastjóri að lokum aðeins eina spurningu… eða öllu heldur beiðni frá góðum vini með tengingu upp í fjallið. Hún tengist háfjallamennsku eiginlega ekkert, nema að því leiti að ástin spyr hvorki um stund né stað og að rómantíkin svífur jú í loftinu … og kannski því meiri sem hærra er farið … eða lengra hvað veit ég! Þeir sem hafa bara áhuga á háfjallamennsku geta því hætt að lesa hér.
Skeytastjóri: „Hann Sverrir biður þig lengstra orð að kyssa hana Kötu … frá sér altso!“
Leifur: „Ég kannski segji henni það bara.“

/ Jón Gauti

Canaleta markhorrel.com

Horft niður Canaleta sem er rétt undir hryggnum í 6650 metra hæð. Þar er nú 80 cm snjófleki sem ógnað getur tilveru fjallamanna. Einnig er til í dæminu að hann fjúki út í hafsauga í því óveðri sem spáð er næstu daga. (heimild: www.markhorrel.com)