Heltist úr lestinni með háfjallaveiki


Klukkan 20.55 á Íslandi hringdi síminn +884_____ rosa langt númer.

Leifur: „Blessaður Gauti.
Viltu heyra alla söguna eins og þetta var í raun?“

Skeytastjóri: „Hum…jaá.“
Leifur: „Þú verður þá að lofa mér að birta ekkert nema að heyra fyrst i Villý eða Villa“

Skeytastjóri: „Að sjálfsögðu“

Ég þrýsti símanum nú fastar að eyranu en fann um leið fyrir hnúti í maganum vegna þess óvænta og óþekkta sem ég átti eftir að heyra.

Leifur: „Þau Villi og Villý snéru við niður í grunnbúðir í morgun …“ dududu!

Skeytastjóri: „Fjandinn … slitnaði“

– Nokkrum sekúndum síðar hringdi síminn aftur

Leifur: „Blessaður Gauti“ dududu! fjand… slitnaði aftur.

… allt er þegar þrennt er.

Leifur: „Nú liggjum við með tærnar upp í loft inni í tjaldi og rífum í okkur harðfisk á meðan prímusinn mallar og bræðir snjó. En nóttin og sérstaklega morgunin var viðburðarríkur.

Þegar við komum upp í „Nidó“ (innsk. Nido de Cóndores (5.550 m) í gær var Villi vel dasaður og gekk orðið mjög hæt seinasta spölinn. Honum leið í sjálfu sér ekki illa og var með góða matarlist og engan hausverk. En þegar ég mældi hann með súrefnismettununar mælinum mínum varð strax ljóst að ekki var allt með feldu. Hann var með mjög lága mettun og því var sjálfgefið í gærkveldi að hann færi ekki ofar á fjallið í bráð en hugmyndin að hann tæki auka hvíldardag í dag.

Ekki var svo langt liðið á nóttina þegar ljóst var að eitthvað meira var að. Ég vaknaði með honum nokkrum sinnum yfir nóttina og þá átti hann erfitt með andardrátt. Við ákváðum þó að bíða birtingar í morgun en að þá myndi hann lækka sig á fjallinu og fara niður í grunnbúðir.“

(Næsti hluti samtalsins var óskýr svo hér varð skeytastjóri aðeins að fylla í eyðurnar).

„Þegar þær vöknuðu í hinu tjaldinu ákváðum við Vilborg að hún tæki pokan hans og fylgdi Villa niður en að hann bæri bara eitthvað lítið. Þegar Villi væri orðin sjálfbjarga var hugmyndin að hún (Villý) myndi snúa við og koma aftur upp til okkar. Þetta var planið, en þegar ég hlustaði á brjóstkassa Villa um morguninn heyrði maður bara brakið í önduninni og þá var ekki um að villast að hann var komin með lungnabjúg og komin með ákveðin einkenni háfjallaveiki. Þegar hann svo reyndi að standa á fætur var ljóst að hann var mjög máttfarinn og stóð varla undir sér og átti erfitt með gang. Með þessi áberandi einkenni frá lungum og mikinn slappleika gáfum við honum lyf við hæðarveik sem virtust strax hækka súrefnismettunina. Læknir sem var þarna í búðunum fylgdist með og staðfesti lyfjagjöfina og síðan fengum við tvo fíleflda þjóðagarðsverði, sem voru með súrefni tiltækt, til að fylgja honum niður. Gangan hefur eflaust tekið mjög á hann því hann virtist mjög veikburða. Það var mjög erfitt fyrir okkur hin sem eftir voru að sjá á eftir honum niður og ekki laust við að hugur okkar hafi verið hjá honum í dag. Það var svo gott að fá staðfestingu á því að hann og Villý hefðu komist niður í grunnbúðir en ég er ekki búin að heyra í þeim hvernig líðanin er. Þar eru að minnsta kosti læknar og meira súrefni.

Við héldum að hvíldin uppi myndi nægja því fyrir utan þrekleysi og lélega mettun þá virtist hann hress með góða matarlist og hvorki ógleði né hausverk. Þótt okkur hinum líði vel þá fær þetta auðvitað svolítið á okkur og litar kannski eitthvað afstöðu okkar til framhaldsins.

Ef ákveðnum skylirðum er fullnægt þá munum við reyna en ef ekki þá munum við snúa við. Með öðrum orðum ef einhver efi er með heilsuna í fyrramálið þá erum við sammála um að snúa við niður í búðirnar. Við ætlum semsagt að snúa við nema allt sé í fullkomnu lagi fyrramálið.“

Mitt í samtalinu berast skeytastjóra eftirfarandi skilaboð á fésbók sem stela athygli hans. Þau eru frá Ylfu Þorsteinsdóttur konu Villa. Skeytastjóri les þær í rauntíma fyrir Leif sem beið fréttaþyrstur hinum megin á línunni.

„Villi var að hringja úr pl. de mulas.
Honum leið betur, búinn að fara í læknisskoðun,
enginn vökvi í lungum lengur, bara hress en þreyttur.“

Leifur: „Æ … gott að heyra þetta. Hann er þá í góðum höndum. Villý verður þá hjá honum þangað til við komum niður.“

Skeytastjóri: „En hvernig eru aðstæður þarna núna? Snjóaði ekki einhvern helling í dag?“

Leifur: „Það er raunar ótrúlegt að sjá fjallið í þessum aðstæðum. Í dag óðum við snjó upp í miðja leggi. Í morgun ákváðum við að vera ekkert að flýta okkur og leyfa öðrum hópum að fara á undan til að ryðja leiðina í gegnum samfellt snjólag upp á 30-40 cm niður á grjót. Þetta gerir gönguna mjög erfiða. Maður þarf að vanda sig í hverju skrefi. Í gærnótt gerði snarpan vind og fyrri hluta dags var gríðarlega heitt. Það springur öðru hvoru frá snjónum í sporunum en það er ekki rennslisflötur og því ekki snjóflóðahætta. Það er fullt af fólki á fjallinu og margir í búðunum þar sem við erum núna.“

Nú var samtal okkar Leifs orðið vandræðalega langt og ákveðið að slíta því en heyrast í fyrramálið (hádeginu að íslenskum tíma).

Að svo búnu hringdi skeytastjóri í Ylfu til að fá nánari fréttir.
Ylfa: „Hann var búin að fara í læknisskoðun í grunnbúðum þar sem súrefnismettunin var góð og þeir fullyrtu að lungun væru hrein og engin vökvi í þeim. Hann fer svo enn aftur í fyrramálið. Hann er greinilega í góðum höndum þarna hjá þeim.“

Í miðju samtali við Ylfu hringdi svo heimasíminn … engin friður! Það var þá annað langt gervihnattanúmer, í þetta sinn Vilborg Arna.
Skeytastjóra þyrsti ekki síður í sögu hennar.

Villý: „Villi var mjög slappur á niðurleiðinni en eftir því sem neðar dróg fór honum að ganga betur. Við fórum beint til læknana í grunnbúðum þegar við komum og núna erum að fara aftur að hitta þá. Honum líður miklu betur núna.“

Þá var að hlera Villý með framhaldið.

Skeytastjóri: „Hvað með þig sjálfa … munntu gefa þér tíma eftir að veðrið gengur yfir til að reyna aftur við fjallið?“

Villý (svaraði að bragði með einstaklega rólegri og yfirvegaðri röddu): „Ég fer bara ein upp þegar það er komið gott veður. Þá fer ég bara og kýli á þetta. Ég verð bara róleg næstu daga og hvíli mig hér í grunnbúðum en svo kýli ég bara á þetta.“

Ekkert flókið og engin vandamál… bara lausnir. 

Þar sem dagurinn fór eins og hann fór ákvað Leifur að fresta öllum meiriháttar ákvörðunum til fyrramáls en reikna má með að skeytastjóri fái upphringingu á milli kl. 11-13 að íslenskum tíma þar sem Argentína er 3 tímum á eftir.

/Jón Gauti (Skeytastjóri)
P.s. Áhugasamir um háu fjöllin vilja kannski skoða þessa ferð sem er á dagskrá næsta haust  

Ef til vill eru aðstæður á fjallinu ekki ósvipaðar því sem þessi mynd sýnir.  Mynd fengin að láni á (http://www.travelthewholeworld.com).

Ef til vill eru aðstæður á fjallinu ekki ósvipaðar því sem þessi mynd sýnir.
Mynd fengin að láni á (http://www.travelthewholeworld.com).