„Sæll Gauti … þetta er Villi“


Þótt ég hafi þegar fengið fréttir af mínum góða ferðafélaga og Fjallafóli í gegnum Ylfu konu hans og Vilborgu var ótrúlega gott að heyra nú fyrst í honum röddina sem gaf ótvírætt til kynna að fjallatöffarinn Villi var heill á húfi eftir hremmingar síðustu daga.

Í gærmorgun yfirgáfu Vilhjálmur og Vilborg grunnbúðirnar (Plaza de Mulas 4300 m) að læknisráði og gengu alla leið niður í andyri þjóðgarðsins Horcones 2950 metra hæð (heilir 26 km) og fengu far þaðan niður í lítið skíðaþorp Los Penitendes (3.390 m)  þar sem Villi ætlar að safna kröftum og  bíða félaga sinna sem væntanlegir eru þangað niður í fyrsta lagi á morgun. Vilborg á hinn bóginn afréð að leggja af stað í býtið í morgun og ætlaði að freysta þess að fá far upp í Horcones og ganga þaðan alla leið upp í Grunnbúðir til að hitta félagana þegar þau koma niður af fjallinu síðar í dag eða kvöld.

En aftur að Vilhjálmi og hremmingum hans.
„Þetta var andstyggilegt“ sagði Vilhjálmur þegar ég spurði hann út í ástandið þarna uppi.

Ljóst er að litlu mátti muna hátt í hlíðum fjallsins þegar veikindi Vilhjálms versnuðu hratt aðfaranótt föstudagsins 17. jan. Þá svaf hann ekkert en hlustaði á hryglið í hverjum andardrætti. Útafliggjandi kvaðst hann ekki almennilega hafa gert sér ljóst hversu alvarlegt ástandið var, en þegar hann um morguninn fór að bisa við jafn einfallt verk og að rúlla upp dýnunni þurfti hann margar og ýtrekaðar tilraunir sem flestar runnu út í sandinn. Þegar svo að því kom að skríða út úr tjaldinu varð öllum sem á horfðu ljóst að eitthvað mikið var að þar sem hann stóð varla undir sjálfum sér. Ástandið var alvarlegt. Hann átti þá erfitt með að standa auk þess sem sjóntruflanir gerðu vart við sig.
„Ég var bara út úr heiminum“ sagði Vilhjálmur í símanum.

Með aðstoð lækna í Nido de Cóndores og síðar tveggja fílelfdra fjallalögreglumanna og Vilborgar Örnu var Vilhjálmur studdur niður í 5000 metra hæð þar sem hann gat fyrst gengið undir sjálfum sér niður í Plaza de Mulaz (4300 m). Eins og fyrr segir fékk hann góða læknisaðstoð þar en til að ná sér betur var honum ráðlagt að lækka sig enn frekar.
„Þetta var mjög hratt „recovery“ þegar við komum niður fyrir 5000 metra hæð.“

Á leiðinni í gær niður úr grunnbúðum með Vilborgu Örnu segir Vilhjálmur að vel hafi gengið niðurímóti og á jafnsléttu þar sem hann gat auðveldlega haldið 5 km meðalhraða en um leið og brekkurnar hölluðu upp í mót fann hann fyrir þrekleysi.
„Ég er þróttlaus núna og með svolítinn svima.“

Vilhjálmur ætlar sem fyrr segir að bíða félaga sinna sem væntanlega verða komin til hans seint annað kvöld.

Svo hringdi Leifur … sjá næsta pistil.