Slökun í hæsta gallaríi heims


Seint í gærkveldi barst skeytastjóra símtal frá Leifi Erni úr grunnbúðum Aconcagua (Plaza de Mulas, 4,370m).
Gott hljóð var í Leifi en þó mátti greina svolítinn áhyggjutón í röddinni varðandi veðurútlitið á fyrsta mögulega toppadeginum sem fyrirhugaður var hinn 17. janúar. En skipulagið gerir ráð fyrir sveigjanleika og næstu daga er líklegt að legið verði yfir veðurspám og besti toppadagurinn valinn. Í kjölfar símtalsins barst meðfylgjandi póstur.

Eftir morgunmat í morgun skipulögðum við matarmálin fyrir næstu daga og gerðum klárt fyrir burðarmennina sem bera mat og búnað fyrir okkur upp í næstu tvær búðir þar sem það svo bíður okkar þegar við leggjum á fjallið eftir morgundaginn.
Því sem eftir lifði dags var eytt í afslöppun og skoðun grunnbúðanna auk þess sem við fórum í aðra læknisskoðun sem kom vel út en við þurfum samt að líta við hjá lækninum eftir aðlögunargönguna sem er á dagskrá á morgun. Við pössum okkur á því að fá okkur brimsaltar flögur áður en við heimsækjum lækninn því það hefur ekki góð áhrif á blóðþrýstinginn sem var í hærri kantinum hjá okkur flestum en allt annað var mjög gott.
Hér í grunnbúðum er ýmsa þjónustu að fá, hægt er að komast á netið, kíkja í búðir  fara á veitingastað og heimsækja hæsta gallerí í heiminum. Já galleríið er með vottun frá Guinness sjálfum uppá hæstu staðsetninguna. Þar sýnir og selur listamaðurinn Miguel Duoro myndir sínar sem flestar eru innblásnar af fjallasölunum hérna og margar hverjar mjög sérstakar enda sérstæður listamaður hér á ferð sem jafnvel hefur málað á tindi Aconcagua.
Öllum heilsast vel og virðast þessar vægu meltingartruflanir sem hrjáðu okkur í gær vera að ganga yfir.
Veðrið er búið að vera mjög gott, léttskýjað og steikjandi sól yfir daginn en eitthvað frost yfir nóttina.

 

 

 

Villý þungklifjuð

Horft yfir Plaza de Mulas í 4.370 m hæð.

Dagný og Katrín í garði hæsta Gallerís heims skv. Heimsmetabók Guinnes

Þessi póstur var sendur með Inmarsat BGAN gervihnattabúnaði frá Sónar ehf. Sónar hefur lausnirnar fyrir fjarskipti utan alfaraleiða.