Snjókoma, þrumur og eldingar


Ring! (þetta er sko gervihnattasími!) Klukkan er 20.50 og Spánverjavígin í handboltanum rétt yfirstaðin. „úbs … það er langa númerið sem birtist á skjánum“. Ég hendi frá mér fjarstýringunni um leið og ég sprett upp úr sófanum og stekk inn í eldhús þar sem ég hendi disknum í vaskinn (já ég var að borða í stofunni) og kalla til Kolbein Tuma sem enn situr inni í stofu „Já við tökum uppvaskið saman þegar ég er búin“. Það rennur upp fyrir mér að ég var ekki búin að ræsa fj. tölvuna. Ég hefði mátt vita að hann hringdi. Ég sé númerið á skjánum en dreg að svara eins lengi og ég tel mögulegt en ýti næsta ósjálfrátt á takkan eftir þrjár hringingar … er ekki alþjóðlegt að fleiri hringingar séu merki um truflun eða að engin sé heima?  Broguð rödd segir: „Sæll Gauti minn“ en stuttu síðar kveða við skruðningar og dududu! … hum? Samtalið slitnaði. Heppni í óheppni fyrir mig sem gefst nú tækifæri til að hysja upp um mig buxurnar og kveikja á tölvunni. En hvað er ég að æsa mig? Það getur varla verið svo hræðilega dýrt að hringja í gervihnattasíma frá Argentínu … eða hvað? Nú er allt klárt í tölvunni; ritvinnslan, veðursíðan, dagskrá leiðangursins og helstu símanúmer … til öryggis. Já ég gegni sérstaklega mikilvægu hlutverki í þessum leiðangri svo það sé á hreinu og mun gera allt sem ég get til að koma þeim þarna upp. Ég bíð en engin hringir. úbs! Hvað hefur gerst? En svo allt í einu birtist langa númerið á skjánum.

Sæll Gauti. Við erum komin upp í Nido (Nido de Condores 5.550 m). Við lögðum af stað í heiðskýru veðri og fallegu í morgun en fljótlega þykknaði upp og snjóaði lítilega á leiðinni.
Þegar við komum hingað upp í tjaldbúðirnar var smá haglél sem síðan hefur aukist mikið þegar líður á daginn og lemur nú tjaldhimininn að utan. Þessu fylgja líka miklar þrumur og eldingar sem okkur íslendingunum finnst mikið sjónarspil en heimamenn eru rólegri og eru sennilega vanari.
Gangan upp reyndi verulega á okkur þar sem tjöldin höfðu bæst við byrðar okkar. En þrátt fyrir mjög svo hæga göngu og stutt skref herjaði mæðuveikin á okkur öll svo þetta tók sinn tíma.
Við vorum rétt um fjóra tíma hingað upp eftir um hálftíma lengur en við ráðgerðum. 
Nú erum við komin inn í tjald búin að fá súpuna í forrét of þægileg þreytutilfinning sígur í skrokkinn eftir erfiði dagsins. En öllum líður vel.
Á morgun er mikilvægur dagur þá ráðum við ráðum okkar með … (
skyndilega kveða við miklar drunur í bakgrunninum) Vá heyrðirðu þetta? Þetta var sko þruma í 5550 metra hæð. En sem sagt á morgun er síðasti sjans að ákveða mögulegan toppadag sem verður í fyrsta lagi á sunnudaginn en í síðasta lagi 23. janúar. Á morgun ætlum við upp í þriðja camp (Berlin) með farangur og vistir en komum svo aftur hingað niður í Nido (Nido de Condores) og sofum. Verðum í sambandi annað kvöld“

Þá var komin matartími í Argentínu og samtali okkar lauk. Svo mörg voru þau orð.

Túlkun skeytastjóra á veðurspá næstu daga er að seinni part morgundagsinns muni mökk snjóa á fjallinu og það eitt og sér geti haft veruleg áhrif á ákvörðun hópsins.
En fjarlægðin gerir fjöllin blá og ákvarðanir einfaldar. Undirrituðum sýnist aðalega tveir kostir í stöðunni ef aðeins er miðað við veðurspána.

A. Að halda áætlun og stefna á erfiðan toppadag sunnudaginn 19. janúar í allt að 12-15 m/s vindi (og snjófjúki) og halda svo eins langt niður fjallið og mögulegt er … helst alveg niður í camp 3 Berlín í 6.000 metra hæð þangað sem þau stefna á morgun með farangur.

B. Að þau pinnfesti tjöld sín og búnað í Camp 3 á morgun en haldi svo alveg niður í grunnbúðir (Plaza de Mulas 4.300 m) og verji næstu dögum þar.

C. Þriðji kosturinn væri svo að yfirgefa fjallið með allan búnaðinn … ef veðurspáin verður með versta móti. Því mánudagur og þriðjudagur eru langt í frá kræsilegir í þessari hæð.

Myndirnar sem fylgja eru fengnar af netinu (heimildir innan sviga).

mendoza_camino_aconcagua_peter_czanyo_5

http://www.culturademontania.com.ar/Noticias/NOT_cambiar_la_mirda_peter_czanyo_la_montana_042012.htm

Nido_condores_peter_czanyo_4

Tjaldstaður á Nido de Condores (5550 m)
http://www.culturademontania.com.ar/Noticias/NOT_cambiar_la_mirda_peter_czanyo_la_montana_042012.htm

new-snow-at-berlin-camp

Tjald í Camp 3 Berlin
http://www.bergadventures.com/v3_cyber/2011/2011-01-08-aconcagua/dispatch-18.php