Stormviðvörun! ef ekki hér þá þar


Ath. neðst í þessari færslu eru nýjustu upplýsingar sem voru að berast eftir að skeytið fór í loftið!

Leifur hringdi aftur kl. 12.15 (9.15 að staðartíma) … að þessu sinni úr kvennatjaldinu!

Leifur: „Það er allt annað að vera hér hjá konunum, með fullri firðingu fyrir Steina. Einhvern vegin miklu huggulegra hjá þeim! Við erum búin að vera að ræða stöðuna og erum komin á þá skoðun að töluverð áhætta sé fólgin í niðurgögnunni á mánudaginn og ætlum því að snúa við í dag.“

og Leifur hélt áfram: „En heilsan er góð svo við erum eðlilega svolítið svekkt. Við ætlum þó ekki að taka neina áhættu og aðstæður í fjallinu eru bara alls ekki góðar, heilmikill lausasnjór og mikill vindur sem er ekki góð blanda.“

…og Leifur hélt áfram: „Við vorum að vonast til að einhver seinkun yrði á veðrinu og að við hefðum 12 tíma glugga til að ná toppnum og komast aftur niður. Hér í tjaldbúðunum sér maður fólk sem hefur ætlað að hækka sig í dag og reyna við toppinn á morgun en hefur snúið við og og rétt staulast áfram hérna fyrir utan í kafsnjó og kófi. Það eru greinilega fleiri hræddir við mánudaginn en við.
Núna er planið að skipta liði þannig að tveir fari upp í efstu búðir Plaza Cólera (5930 m) til að taka saman koma búnaði niður, en tveir verða eftir hér í búðunum í Nido að taka saman. Hugmyndin er svo að ganga saman niður í grunnbúðir í dag.“

Skeitastjóri: „Hvenær reiknarðu með að vera komin niður í grunnbúðir?“

Leifur: „Við verðum ekki komin niður fyrr en seint í dag. Ofan á mikinn útbúnað erum við með gríðarlega mikinn mat hérna uppi enda var hugmyndin að geta haldið út hér þar til veðrið gengi yfir og eiga möguleika á að toppa í síðasta lagi á fimmtudaginn (23. jan). Nú vorum við að fá SMS með viðvörun til göngumanna á fjallinu um að veðrið á þriðjudag og miðvikudag sé verra en búist var við. Fjallgöngumönnum er því ráðlagt að fara niður á morgun.“

Þar með lauk samtalinu en ráðgert er að fréttir berist næst úr grunnbúðum í formi tölvupósts.
Leifur vildi undirstrika að þau fjögur sem ennþá væru uppi væru við hestaheilsu og líkamlega í góðu ástandi. „En við erum með lágmarksaðlögun og ætlum ekki að taka neina áhættu.“

Við þetta gladdist skeytastjóri enda alþekkt að lægðirnar fara en fjöllin ekki.

Klukkan er 12.32 (ísl. tíma). Skeytastjóri hefur sig allan við að koma efni á vefinn þegar Leifur hringir aftur!

Leifur: „Sæll Gauti … það er enn morgunverðarfundur hér í kvennatjaldinu og smá breytingar á plönunum.“

Skeytastjóri geriðst nú stressður og færðist allur í aukana svo sviti spratt fram undan ermunum.

Leifur: „ Já af því að við höfum í raun nægan tíma þá ætlum við að taka því rólega í dag í tjaldinu og drepa tímann með spilamennsku og slíku en rölta svo saman á morgun upp í efstu búðir (Plaza Cólera) taka saman búnaðinn og ganga svo saman niður í grunnbúðir. Við viljum endilega nýta daginn á morgun sem á að vera bjartur og fallegur, taka myndir og njóta útsýnisins í stað þess að reyna það eins og aðstæður eru núna.“

Á bak við Leif greinir skeytastjóri raddir samferðamannana og Dagnýju skjóta því inn að þetta sé skítaveður.
Leifur: „Já þetta er sannkallað skítaveður með mikilli úrkomu og aðeins 50 metra skyggni.

Skeytastjóri: „En er einhver minnsta von til þess að þið skiptið um skoðun á morgun og látið slag standa þegar komið er upp í efstu búðir í von um að ná á toppinn og niður aftur á löngum degi?“

Leifur: „Nei, við erum með lágmarksaðlögun og það myndi aldrei ganga upp. Við ætlum ekki að taka neina sjansa.“

Þar með lauk samtalinu en vonandi að frekari fréttir berist í kvöld eða seint annað kvöld.

Svo bíður skeytastjóri enn eftir því að heyra í Vilborgu og Villa í grunnbúðum svo vera má að upplýsingar verði uppfærðar hér áður en langt um líður.

Þegar þessi færsla var farinn í loftið bárust nýjar upplýsingar frá Ylfu konu Vilhjálms sem hafði heyrt í honum í síma.
Hann sagðist þá hafa sofið eins og engill og væri allur miklu hressari en í gær. Þau Vilborg biðu þess nú að fá fréttir af ferðafélögunum og hvað þau ætluðu að gera og myndu að öllum líkindum bíða þeirra í grunnbúðum.

/Jón Gauti

Villi í Marokkó

Meðfylgjandi mynd er úr safni skeytastjóra og sýnir Vilhjálm og hæsta fjall Norður Afríku Jabel Toubkal í Atlasfjöllum Marokkó.