Einn tindur að baki hjá Afríkuleiðangrinum


Nýjustu fréttir frá Afríku eru á þessa leið:

Við erum hérna eldhress á Ashi hótelinu. Ferðin á Merutind sem reyndar heitir því skemmtilega nafni Sósjalistatindur gekk vel og allir komust á toppin í gærmorgun og sáu magnaða sólarupprásina.
Enginn hefur verið með teljandi óþægindi vegna hæðarinnar og við erum bjartsýn fyrir Kilimanjaro gönguna. Toppadagurinn hófst á miðnætti með morgunmat og lagt var af stað kl 1. Fyrripart göngunnar var myrkur, þoka og smá úrkoma en upp úr kl 5 birti til og stjörnubjartur himininn blasti við okkur.  Allir náðu á toppinn um kl 6 og horfði saman á sólarupprásina sem lét engann ósnortinn og á sama tíma myndaðist skuggi af fjallinu hinu megin. Eftir að allir höfðu fengið sér hressingu og tekið nægju sína af toppamyndum var haldið niður á leið. Allir sofnuðu svo sælir eftir langan og krefjandi dag eftir göngu niður í Maria Kamba búðirnar.
Í morgun gengum við svo út úr Meru þjóðgarðinum og erum núna í vellystingum og afslappelsi á hóteli í undirhlíðum Kilimanjaro. Óþarft er að taka það fram að við eru að sjálfsögðu að undirbúa okkur fyrir næstu áskorun. Þjónusta heimamanna hefur verið til fyrirmyndar og ótrúlegt að fá kaffibolla í bólið áður en maður fer á fætur. Dýralífið sýndi líka allar sýnar bestu hliðar og við höfum séð apa, buffalóa, gíraffa, zebrahesta, villisvín og ýmsa litskrúðuga fugla. Ingvar tökumaður hefur svo boðið hópnum upp á jóga og teygjur eftir göngurnar á daginn. Í það heila aldeilis hreint dásamlegur tími að baki og vonandi bara hamingja og gleði framundan hjá hópnum.
meru2    meru1    meru3
Ása á Merutindi og Kili í bakgrunni,     sólarupprásin á Meru   Nei, þetta er ekki hótelið þeirra