Uhuru tindur að baki


Hópurinn náði Uhuru tindi, hátindi Afríku um klukkan 7 í morgun að staðartíma eftir næturlanga göngu undir stjörnum prýddum himni.  Gangan gekk einstaklega vel þó að nokkrir hafi fundið fyrir örlitlum hæðaróþægindum sem voru svo væg að það tekur því varla að minnast á það. Veðrið var ofboðslega gott og mikil stemning í hópnum. Fjallasteini var með gítar sem komst á toppinn og þar tók hópurinn lagið með söng á afrísku/swahili og svo var tekinn afmælissöngurinn fyrir einn úr hópnum, hann Gunnar sem á afmæli í dag og við sendum honum að sjálfsögðu góða afmæliskveðju héðan norðan af Fróni. Ekki amalegt að eiga afmælisdag á toppnum!

Eftir að hafa spókað sig um á toppnum var gengið aftur niður í Barranco búðirnar, Þar beið hressing og hópurinn fékk sér að borða áður en gengið var frá farangri og haldið áleiðis niður fjallið í Mweka búðirnar þar sem hópurinn dvelur í nótt í 3000 metra hæð og lýkur svo göngunni í fyrramálið. Allir hópmeðlimir eru hressir og líður mjög vel – annað varla hægt eftir að hafa komist á toppinn – en ekki er laust við að fólk sé pínu lúið eftir langan dag.

Við óskum öllum fjallagörpunum og gyðjunum hjartanlega til hamingju með þennan glæsta árangur!

glittir í Meru fjall og skammt eftir á Uhuru tind

Hérna glittir í Meru fjall og jökulinn á Kilimanjaro og það er stutt á Uhuru tind