Veðurspá beint í æð á fastandi maga


Upprifjun: Vilborg og Vilhjálmur snéru við í gær úr búðum í 5550 metra hæð og gengu niður í grunnbúðir (4.300 m). Vilhjálmur hafði þá verið slappur og að öllum líkindum með einkenni háfjallaveiki sem þó rjátluðu af honum um leið og hann komst í meira súrefni neðar á fjallinu.
Í stuttu samtali við Vilborgu í gærkveldi sagði hún líðan Vilhjálms vera mun betri.

Í morgun Klukkan 11.10 að íslenskum tíma hringdi Leifur Örn, úr Nido de Cóndres búðunum í 5550 metra hæð, í Skeytastjóra til að fá nýjustu fréttir af veðri. Hann var þá nývaknaður og ekki búin að taka púlsinn á samferðamönnum sínum en sagði allt benda til þess að allt væri í góðu lagi eftir nóttina.

Við Leifur ræddum veðurútlitið fyrir morgundaginn (sunnudaginn 19. janúar) sem er fyrsti mögulegi toppadagur hópsins. Þá er gert ráð fyrir 10-12 m/s sem í sjálfu sér er ekki ómögulegt ef ekki væri fyrir mjög hratt versnandi veður á mánudeginum þegar hópurinn yrði staddur í tjöldum í efstu búðum í tæplega 6000 metra hæð á niðurleiðinni. Þá gerir veðurspá ráð fyrir 14-18m/s sem hæglega gæti gert þau að strandaglópum fram á föstudag þegar veðurhamurinn virðist aðeins ætla að dúra.
„Mér líst illa á mánudaginn!“ sagði Leifur en ætlaði að fá sér morgunmat og taka stöðuna á samferðafólki sínu sem nú eru þau aðeins fjögur eftir á fjallinu. Í kvennatjaldinu eru Dagný og Katrín María en Þorsteinn (Fjallasteini) er með Leifi í hinu tjaldinu.
Þegar ég spurði Leif út í aðstæður á fjallinu sagði hann þær erfiðar og að menn væru að koma niður úr efri búðum kappklæddir í dún sem segði sína sögu.

Snjókoma undanfarna daga hefur spillt færðinni svo gera verður ráð fyrir erfiðari dögum og meiri tíma í gönguna.

Að lokum bað skeytastjóri Leif að hringja eftir morgunmat þegar ákvörðun um næstu skref lægi fyrir. Það gæti orðið innan tveggja tíma.
Engar fréttir hafa enn borist frá Vilhjálmi og Vilborgu Örnu í grunnbúðum en þar er nú hægur vindur, 5°C og svolítil rigning skv. veðurspánni. Í grunnbúðum er netsamband og því er einhver von til þess að þau geti sent myndir og upplýsingar af aðstæðum síðar í dag.

Sjá blog gærdagsins hér:

/Jón Gauti … skeytastjóri

Screen Shot 2014-01-18 at 11.37.14

 

Samanburður ólýkra mælieininga vindhraða

Samanburður ólýkra mælieininga vindhraða
(Heimild: http://www.vedur.is/vedur/frodleikur/greinar/nr/349)